Mývetningur sæmir Valda, Gullmerki HSÞ
- Anton Freyr

- Apr 22
- 2 min read
Mývetningur sæmir, Valda / Þorvald Þorsteinsson Til gullmerkis HSÞ.
Gullmerki HSÞ er veitt þeim sem lagt hafa sitt af mörkum um langt skeið svo eftir sé tekið og öðrum til eftirbreytni.

Skíðastarf í Mývatnssveit er stór partur af mannlífi og íþrótta og æskulýðsstarfi í sveitinni. Heilu kynslóðir Mývetninga hafa nú verið aldar upp við mikla og metnaðasama skíðaástundun. Í dag æfir rúmlega helmingur allra barna í Mývatnssveit skíði, og stór hópur fólks kemur saman marga daga í viku við að halda úti skíðasvæðinu í Kröflu, auk þess sem gönguskíðabrautum er haldið úti að hálfu félagsins.
Í öllu þessu starfi er einn maður sem á lang mestan þátt í að gera þetta að veruleika. Með ósérhlífni í sjálfboðastarfi, takmarkalausri bjartsýni og óþrjótandi ástríðu fyrir því að kenna börnum á skíði, tókst Valda að byggja upp skíðastarf í Mývatnssveit í kringum aldamótin 2000.
Þorvaldur Þorsteinsson, “ Valdi “ flutti í Mývatnssveit til að vinna sem rafvirki við Kísiliðjuna. Valdi er frá Siglufirði og hafði alla tíð lifað og hrærst í skíðastarfi. Þegar hann flutti í Mývatnssveit var hann fljótur að smala með sér mannskap í að ræsa gamla lyftu sem sett var upp í Hlíðinni ofan við tjaldsvæðið Hlíð.
Hóf Valdi þá skíðaæfingar Mývetnings og hófst þar sú vegferð sem nú er enn í gangi.
“ Jaaa sko, eins og ég segi, þetta verður bara svona ein góð helgi”
Þessi setning er í raun eins lýsandi og unnt getur orðið um hugarfar Valda. En þetta var setningin sem hann notaði þegar hann kynnti hugmyndina um að sækja aflagða, bilaða skíðalyftu til Reykjavíkur, gera hana upp og setja upp í Kröflu þar sem hún stendur enn.
Ljóst er að helgarnar voru margar, kvöldin mörg, dagarnir margir og vikurnar líka.
Vissulega var um að ræða stóran hóp af fólki, en Valdi var alltaf drifkrafturinn á bak við þetta starf. Þegar lyftan var tilbúin hófust skíðaæfingar í Kröflu og standa þær enn.
Í vel rúman áratug stóð Valdi fyrir skíðaæfingum sem voru oft 4-5 æfingar í hverri viku í gegnum veturinn og með honum góður hópur fólks.
Mývetningur tilnefnir Valda ekki eingöngu fyrir það ótrúlega vinnuframlag sem hann lagði fram sem sjálfboðaliði í ungliðahreyfingunni í gegnum árin, heldur ekki síður og jafnvel frekar það hugarfar sem hann stóð fyrir og var áhrifamikil fyrirmynd fyrir fjölda barna um mikilvægi þess hugafars ungmennafélagsandans.
Að hafa óbilandi trú á verkefninu.
Að það mikilvægasta er að gera sitt besta og vera með.
Að allir eigi stað í íþróttum, “það mikilvægasta er bara komast niður”
Og að með bjartsýni og atorku megi áorka ótrúlegustu hlutum þó þeir virðist óhugsandi fyrir öðrum.
Þau börn sem Valdi þjálfaði á skíðum eru nú orðin fullorðin.
Þau börn sem Valdi þjálfaði á skíðum tóku sig til þegar Covid-faraldurinn skall á og endurreistu skíðalyftuna okkar í Kröflu og skíðastarfið.
Þau börn sem Valdi þjálfaði á skíðum muna vel eftir því hugarfari sem einkenndi þetta starf og gera sitt besta til að kenna þeim börnum sem nú læra á skíði mikilvægi ungmennafélagsandans.
Takk Valdi.




