top of page

Lög Félagsins

Samþykktir fyrir Mývetning íþrótta og ungmennafélag.

 

 1. Kafli

Heiti félagsins, heimili, tilgangur, merki og búningur.

 1. Félagið heitir Mývetningur íþrótta og ungmennafélag. Skammstafað Mýv. Heimili þess og varnarþing er í Skútustaðahreppi.
   

 2. Starfssvæði félagsins er í Skútustaðahreppi.
   

 3. Tilgangur félagsins er að halda uppi íþróttastarfsemi og annari heilbrigðri félagsstarfsemi.
   

 4. Merki félagsins er: (Efnt verður til samkeppni um merki fyrir félagið, og skal henni lokið fyrir aðalfundsem haldinn verður í mars 2003).
   

 5. Grunnlitir í keppnisbúningi félagsins eru appelsínugulur toppur með svörtum buxum.
   

 6. Félagið er aðili í Héraðssambandi Suður Þingeyinga, sem er hérðassamband innan Ungmennafélags Íslands og Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands. Starfar félagið samkvæmt reglum þessara heildarsamtaka.
   

 1. Kafli

Félagsaðild og stjórnskipulag.

 1. Félagi getur sá orðið er æskir til þess. Auk þess skulu allir íþróttaiðkendur á vegum félagsins teljast fullgildir félagar, samkvæmt ákvæðum laga Í.S.Í. Enginn getur tekið þátt í keppni fyrir hönd félagsins án þess að vera fullgildur félagi í því. Árlega skal félagaskrá endurskoðuð með tilliti til iðkendaskrár.
   

 2. Stjórn innheimtir árgjald. Stjórn ákveður æfingagjöld. Æfingagjöld skulu að jafnaði ákveðin áður en æfingar hefjast. Stjórn skal leitast við að halda æfingagjöldum hóflegum.
   

 3. Úrsögn úr félaginu skal tikynna stjórn skriflega. Félagar sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins tvö ár í röð hafa fyrirgert öllum rétti sínum innan félagsins og skulu strikaðir af félagaskrá. Þó hefur félagið rétt til að krefja þá um áfallin félagsgjöld.
   

 1. Kafli 

Stjórn félagsins.

 1. Stjórn félagsins skipa fimm menn. Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.

 2. Formaður skal kosinn á hverjum aðalfundi til eins árs í senn. Auk hans skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára, og tvo varamenn til eins árs. (Frá fyrra ári sitja tveir áfram, samtals 5). Formaður er kosinn beint en annars skiptir stjórn með sér verkum. 

 

 1. Formaður skal vera forsvarsmaður félagsins út á við, hann boðar og setur alla fundi og samkomur sem haldnar eru í nafni félagsins.

Varaformaður boðar til stjórnarfunda og minnir stjórnarmenn á fundi með viku fyrirvara, er staðgengill formanns ef formaður forfallast.

Ritari heldur gerðabók, þar sem skráðar eru allar ákvarðanir á stjórnarfundum. Í hana skulu einning vera skráðar fundargerðir aðalfundar og niðurstöðutölur ársreikninga. 

Gjaldkeri fer með allar fjárreiður félagsins og bókfærir tekjur þess og gjöld. Hann skal leggja fyrir aðalfund sundurliðaðan ársrekning ásamt eignaskrá með undirskrift skoðunarmanns.
 

 1. Verkefni stjórnar eru: Að stýra málefnum félagsins milli aðalfunda, vera málssvari félagsins út á við, innheimta árgjöld félaga, afla framlaga úr sjóðum opinberra aðila, stofnana eða fyrirtækja til þeirra verkefna sem félagið hyggist beita sér fyrir að hverju sinni, varðveita sjóði félagsins, gæta hagsmuna félagsins gagnvart sveitafélagi og öðrum opinberum aðilum og stofnunum, auk færslu á iðkendaskrám. Stjórn er heimilt að skipa þær nefndir sem hún telur nauðsynlegar fyrir áframhaldandi vöxt og framgang félagsins og skal einn stjórnarmaður tilnefndur sem tengiliður stjórnar við hverja nefnd.

 

 1. Kafli

Félagsfundir.

 1. Stjórn boðar til almennra félagsfunda þegar hún telur ástæðu til. Til funda skal boðað með minnsta kosti viku fyrirvara með almennri auglýsingu eða á annan ótvíræðan hátt. Fundir í félaginu teljast löglegir sé löglega til þeirra boðað. Skylt er stjórn að boða til félagsfundar sé þess krafist af 20 fullgildum og atkvæðisbærum félögum hið fæsta.
   

 2. Aðalfund félagsins skal halda í mars ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með dreifibréfi með dreifibréfi sem borið skal inn á hvert heimili í Skútustaðahreppi, auk þess sem hann skal auglýstur á opinberum vettvangi, með að minnsta kosti viku fyrirvara.
  Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað.
  Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti hafa allir lögmætir félagar. Atkvæðisrétt og kjörgengi til stjórnarstarfa hafa allir þeir lögmætir félagar sem verða 14 ára eða eldri á almanaksárinu. Þó mega þeir stjórnarmenn sem lokið hafa kjörtíma sínum, skorast undan kosningu um eins árs skeið.
   

 3. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
  Meðal dagskrárliða á aðalfundi skulu vera:
  1. Fundarsetning formanns.

2. Skipun fundarstjóra og fundarritara.

3. Skýrsla formanns um störf félagsins á liðnu starfsári.

4. Gjaldkeri leggur fram ársreikning liðins starfsárs.

5. Umræður og afgreiðsla skýrslu formanns og ársreiknings.

6. Ákvörðun árgjalds.

7. Lagabreytingar, ef löglega bornar tillögur liggja fyrir fundinum.

8. Kosningar:
a) Formaður

b) Tveir stjórnarmenn til tveggja ára og tveir varamenn til eins árs.

c) Tveir skoðunarmenn reikninga til eins árs.

d) Kjör aðal- og varafulltrúa á Ársþing H.S.Þ.

9. Önnur mál.

10. Fundarslit.

 

 1. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála, að undanteknum lagabreytingum og atkvæðagreiðslu um slit félagsins sbr. 6.kafla laga þessara. Kosningar skulu vera skriflegar með eða án tilnefninga. Séu atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða úrslitum.
   

 1. Kafli

Reikningshald og endurskoðun.

 1. Á aðalfundi félagsins skal kjósa tvo skoðunarmenn reikningar og tvo til vara og skulu þeir yfirfara bókhald og ársreikning.
   

 2. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Skal gerð ársreiknings lokið í góðum tíma fyrir aðalfund svo skoðunarmenn geti yfirfarið hann ásamt öllum viðkomandi fylgigögnum.
   

 1. Kafli

Gildistaka, lagabreytingar og slit félagsins.

 1. Tillögur til breytinga á lögum þessum skulu berast stjórn eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund og skulu þær undirritaðar af flytjendum. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur er síðar koma fram, ef 2/3 hlutar atkvæðabærra fundarmanna eru því samþykkir. Til breytinga á samþykktum þessu þarf atkvæði 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.
   

 2. Þar sem ákvæði þessara samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta lögum Ungmennafélags Íslands eða Íþrótta og Ólympíusambands Íslands eftir því sem við á. Skulu þá ákvæði þessarar samþykkta sem brjóta í bága við lög UMFÍ og ÍSÍ, víkja fyrir þeim.
   

 3. Með tillögur um slit og skipti á félaginu eða samruna við önnur félög skal fara með sem um breytingar á samþykktum þessum. Félagafundur sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit og skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda. 

Lögin þannig samþykkt á lögmætum aðalfundi þann 3. apríl 2002

bottom of page